Góður félagi minn spurði, en af hverju mælirðu ekki tímann, hvað lengi er verið að fara til Keflavíkur? "Það er miklu fljótlegra en annars staðar." En, eins og ég útskýri að neðan, þá tekur svona 1:30-2:00 klst að fara með Flybus, frá því maður kaupir miðann þar til maður er kominn í heimahús í Reykjavík.
Hvað er langt og hvað er lengi verið að fara á einhvern stað, já og hvað er langt til Keflavíkur? Jú það eru sem sagt akkúrat 50km frá Lækjartorgi. Ef þú ert Hafnfirðingur þá eru 38 km frá Leifsstöð að Hafnarfjarðarkirkju. Það er ekki vegna þess að þú átt erindi í kirkjuna, heldur er hún ágætur viðmiðunarpunktur, miðpunktur í hjarta Hafnarfjarðar, sem byggðin er utnaum. Ef þú sem Hafnfirðingur keyrir alla leið á 90km/h frá þessu miðgildi að Leifsstöð, þá ertu aðeins um 25 mínútur að Leifsstöð. Fram og tilbaka svona klukkutími.
Og ef þú ert að keyra frá Seltjarnarnesi, þá erum við að ræða svona 55km keyrslu. Ef þú ert að keyra frá Mosfellsbæ, þá eru það tæpir 60km (alls 120km). Mosfellsbær er jú sambærilegur við Hafnarfjörð að ýmsu leyti. Á endamörkum höfuðborgarsvæðisins rétt eins og Seltjarnarnes.
Höfuðborgarsvæðið er í laginu eins og þríhyrningur, með Seltjarnarnesi í vestra horni Mosfellsbæ í eystra horni og Hafnarfirði syðsta horni.
Það eru í raun þrír ferðamátar sem hægt er að nota til viðmiðunar með hvað langt er að Leifsstöð. Það sem flestir þekkja er einkabíllilnn, svo er það rúta og þá leigubíll.
Eiginlega eru leigubílar og bílaleigubílar (ef þeir eru til staðar við lendingu) sami tímakvarði og einkabíll svo ef við setjum ferðakostnað til hliðar, þá er um tvo ferðamöguleika að ræða frá Leifsstöð í höfuðborgarsvæðið; fólksbíll eða rúta. Nú er því þannig farið að Íslendingar sem búa á höfuðborgarsvæðinu nota sinn einkabíl. Þetta er algengasta viðmiðunin. Þeir sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu nota rútuna sem fer á BSÍ.
Ólíkt öðrum höfuðborgum þá er of dýrt að taka leigubíl frá flugvelli í heimahús. Að taka leigubíl frá Keflavík til Reykjavíkur er þrefaldur til fjórfaldur kostnaður miðað við JFK-Manhattan.
|
Ein mælingin, þessi í Janúar 2013 |
Þar eð ég hef búið langtímum í New York borg, þá á ég ekki bíl á Íslandi og tek því yfirleitt rútuna. Þá liggur við að segja, já hún er svona 50 mínútur á BSÍ, það er svona plús og mínus.
En það er eiginlega ekki neitt svar. Því spurningin þarf að vera hvað er langt frá því maður kaupir rútumiðann í Leifsstöð þar til maður labbar inná kaffiilminn í heimahúsi? Er það ekki þetta sem menn eru að spyrja um? Hvað er ferðatíminn langur?
Það sem gildir fyrir hvað, milljón farþega?
Jú ég skal svara því af því ég er svona arkitektanörd og alltaf að mæla allt. Ég er nefnilega búinn að vera að mæla þennan tíma í Keflavík ansi oft. Það eru svona 45 mínútur frá Kringlumýrarbraut að Keflavík á löglegum hraða og án umferðar.
En að taka rútu er varla undir 1,5 klst. aðra leið og oft yfir 2 klst að komast í heimahús eftir flug.
Og það virkar svona komið frá Leifsstöð
- Kaup á miða 0 mínútur
- Bið eftir rútu: 20 mín (0:20)
- Rútuferð á BSÍ 45 mínútur (alls 1:05).
- Bið eftir TAXA 10 mínútur (alls 1:15).
- Taxi kominn og keyrður heim 10 mínútur (alls 1:25).
Samtals 1 klst og 25 mínútur (1:25).
En yfirleitt er þetta ekki svona einfalt. Leigubílar eru bara ekki til staðar þegar maður þarf á þeim að halda. Síminn virkar ekki og útlendingur veit ekkert hvernig hann á að snúa sér í einu eða neinu. Hvernig hringir maður annars í leigubíl? Oftast er þetta langt yfir 1,5 klst aðra leið, jafnvel vel yfir 2 klst að fara frá Leifsstöð í heimahús. Stundum hefur þetta verið svona:
- Kaup á miða 0 mín.
- Bið eftir rútu 30 mín (0:30)
- Rútuferð á BSÍ 65 mín. umferð í Hafnarfirði og norðurúr. (alls 1:35)
- Bið eftir Taxa: Einhver bisniss-jakkafatapési tróð sér fram fyrir mig, ég lengi að athafna mig með barnakerru og bleiupoka og gaurinn náði í síðasta leigubílinn og...Æ svo virkar síminn ekki á Íslandi... Ég finn einhvern til að hringja fyrir mig. Þar til leigubíll kemur: 20 mín. Já þessi liður hefur tekið svona hálftíma. (alls 1:55)
- Taxi kominn og keyrður heim 15 mín (alls 2:10)
Samtals 2 klst og tíu mínútur (2:10)
Já
; bara önnur leið. Ég hef oft margreint þetta. Prófið sjálf, vesgú. Gerið þetta endilega með þrjú lítil börn. Ég hef mælt þetta bæði lengur og skemur.
|
Aeops sagan um hérann og skjaldbökuna. |
Málið er nefnilega að við miðum heiminn út frá okkar persónulegu reynslu. Þ.e. svona Gulli, á heima í Hafnarfirði og á jeppa sem kemst til Keflavíkur á 20 mínútum, "þ.a.l. hljóta að vera bara 20 mínútur í Keflavík!" En það er bara fyrir Gulla sem á jeppann í Hafnarfirði. Ég heiti Ólafur og á heima í New York og það tekur mig að jafnaði 1,5-2klst að komast úr Leifsstöð í heimahús.
Það eru nefnilega ekki allir á einkabíl eða hafa vin eða fjölskyldu sem bíður eftir manni á Leifsstöð við komu eða brottför. Töluvert stór hluti farþega og gesta er einmitt ekki í þeirri aðstöðu að vera skutlað.
Hvað er áætlað að margir komi til landsins 2020 og telst hagkvæmt að flestir séu svona 1,5-2klst á áfangastað í Reykjavík?
Tek annan pól í hæðina að hér úr Manhattan og yfir á JFK, sem er lengst í burtu af flugvöllunum í New York (18km), er ég um 30 mínútur í leigubíl á Sunnudagsmorgni. Á annatíma eru það allt að 50 mínútur, og þá frá flugvelli að heimahúsi.
Það er brot af þeim tíma sem tekur að fara frá Keflavík í heimahús í Reykjavík með annars ágætum Flybus og því sem fylgir.
Svo þá er ágætt að spyrja aftur: Hvað er eiginlega langt til Keflavíkur? Þ.e. Leifsstöð? Og telst hagkvæmt í annars strjálbýlu landi að ferðast 1,5-2 klst aðra leið? Það skal tekið fram að ofangreindur útrásarvíkingur í jakkafötum hefur verið eitthvað fljótari en ég. Sjálfsagt ekki eins fljótur og ef ég hefði ekkert annað að hugsa um en sjálfann mig og ekkert barn með í eftirdragi. En ég var fljótari en einhver sem kemur í fyrsta sinn til landsins og veit ekki hvernig á að snúa sér. Þá hefði ég verið á undan að ná síðasta taxanum!
Svo það má segja að tíminn til Keflavíkur sé ansi afstæður. Einn vinur minn á sportbíl og var 40 mínútur. Annar fór á hótel og var skutlað þangað af Flybus eitthvað svona 1:15. Ég hins vegar hef að jafnaði verið milli 1,5 og 2+ klukkustundir frá Keflavík og við það situr.
Og okkar á milli þykir mér það töluverð tímaeyðsla. Og margt smátt gerir eitt stórt.
Bestu kveðjur frá New York borg
Ólafur Þórðarson
29.05.2014