Olafur Thordarson

Wednesday, October 29, 2014

Er Vatnsmýrin í miðbæ Reykjavíkur?

Miðbær Reykjavíkur.

Hvar er miðbærinn?

Oft heyrir maður því haldið fram að Vatnsmýrin sé í miðbæ Reykjavíkur. Ég hef áhuga á að skoða hér hvort þetta sé rétt fullyrðing. Hún kemur kannski til af því að flest fólk höfuðborgarsvæðisins býr í úthverfum og er eðlislægt að skilgreina borg út frá eigin (bíla) umhverfi. Ég gerði þetta sjálfur þar sem ég er alinn upp í Hvassaleiti -ágætu dæmi um úthverfaskipulag. 
Við nánari skoðun á byggðarmynstri sést vel að eiginlegt miðbæjarskipulag er í raun í kvosinni og upp Laugaveginn og í nærliggjandi götum, s.s. Skólavörðustíg og ýmsum hlutum vesturbæjar. Þau eru mörg millisvæðin en set ég hér fram smá útskýringarmynd til að sýna ílanga legu sjálfs miðbæjarins:


MYND 1
Reykjavík-lega miðbæjar; Borgarkjarninn í rauðu og dökkbláu. Aðlæg hverfi og eiginleg borgargerð í ljósbláu.  Mynd: Ólafur Þórðarson 2013.

Lækjartorg-Hlemmur
Áhugaverðast finnst mér að skoða (labba eða hjóla) leiðina sem tengir Lækjartorg við Hlemm annars vegar og svo leiðina Lækjartorg að BSÍ hins vegar. 
Önnur leiðin er borgarskipulag, þar sem fjölbreytileiki, smágerð byggð og þétt er alla leið. Mikið er af fólki á ferð í erindagjörðum og stærðargráður byggðar, almennt séð, er viðeigandi, mótar skýrar borgargötumyndir og viðheldur þjónustu við gangstétt og þar fram eftir götum. Þessi leið tengir saman borgarhluta með gangvænni þéttri blandaðri byggð. Hún einnig endar nokkurn veginn þar sem við tekur úthverfaskipulag austur fyrir og upp um fyrrum sveitir. "Ég lít til að mynda þannig á að austan Rauðarársstígs sé Reykjavík varla eiginleg borg heldur meira og minna slitrjótt samansafn úthverfa." (Ó.Þ. Mbl. 21.12.1997)

Lækjartorg-BSÍ
Hin leiðin, sem liggur í grófum dráttum að BSÍ liggur fyrst í gegnum borgarskipulag öðrum megin götunnar, þ.e. Lækjargötu. Þá tekur við Tjörnin og svo Sóleyjargata þar sem er garður öðrum megin og tiltölulega dreift skipulag húsa austan megin götu. Byggðamynstur er í grófum dráttum áþekkt Hlíðunum eða á Melunum. Engin þjónusta eða búðir eru á þessari leið, en Hljómskálagarður og Tjörnin gegna sínu ágæta hlutverki að vera andsvar borgarbyggðar. Þegar komið er að BSÍ blasir við nýlega útfært en berangurslegt svæði sem hefur í raun lítið sem ekkert með miðborg að gera, en er meira skyldur kappakstursbrautum og bílastæðaflæmum og þjónustu við bíla fram yfir gangandi, en sinnir þó hjólandi að einhverju leyti.

Svipuð vegalengd
En þegar göngu okkar líkur við Hlemm eða BSÍ getum við mælt leiðirnar og borið saman vegalengdina. Í ljós kemur að Lækjartorg-Hlemmur eru 1,2 km í ríkulegu borgarumhverfi.
Leiðin að BSÍ er afar ólík og alls ekki "miðbær" nema í takmörkuðum skilningi þ.e. fyrstu 250 metrana næst Lækjartorgi. Þessi leið, sem er nærri jafnlöng öllum miðbæjarkjarnanum er einnig um 1,2 km, en liggur beint í burtu frá miðbænum.

Þrjár aðrar mögulegar tengingar eru frá miðbænum í Vatnsmýrina. Ein er Njarðargata. Hún er með ansi laglegri þéttri húsabyggð efst á Skólavörðuholtinu, enda prýði Reykjavíkur á póstkortum. En brött er hún að fara sem bein tenging og vegna legu landsins ekki aðgengilegasta leiðin í miðbæinn. Barónsstígur er önnur möguleg tenging sem vert er að skoða, miðborgarumhverfið sem slíkt er að mestu norðan við Sundhöllina.



MYND 2
Reykjavík-miðbær; Mögulegar tengingar úr miðbæjarskipulagi Reykjavíkur yfir í Vatnsmýri, þ.e. suður yfir Hringbrautina. 1,2 km eru svona rúmlega 20 mínútna labb án hindrana fyrir meðal manneskju.  Mynd: Ólafur Þórðarson 2013.

Fjórða tengingin er Snorrabraut. Þegar ég sleit barnskónum tendist hún með hringtorgi við Miklubraut og þaðan beint ofan í Vatnsmýri. Í dag liggur Snorrabraut beint í hraðbrautarslaufu og þá upp á Bústaðarveg. Þessi mannvirki koma í veg fyrir viðburðarríka beina gangandi borgartengingu frá Vatnsmýri yfir á miðbæjarsvæðið sem við Snorrabraut má segja að sé í- og fyrir norðan Mjólkursamsöluna gömlu og Austurbæjarbíó.

Niðurstaða.
Með þessari samantekt er ég að sýna fram á að Vatnsmýrin er ekki í miðbæ Reykjavíkur og byggð þar yrði sem sagt ekki í miðbæ Reykjavíkur. Ég dreg af ofangreindu þá ályktun að fullyrðingin sé beinlínis röng. Bæði er töluverður spotti að miðbænum (1,1-2 km) og ýmsar hindranir landfræðilegar og í formi mannvirkja, sem ekki styðja þessa tegund borgartengingar. Ég fæ ekki séð að hægt sé að tengja saman Vatnsmýrina og miðbæinn með "borgargötum" nema til komi stórvirk niðurrif á bæði nýlegum mannvirkjum og róttækum breytingum á gömlum grónum hverfum. Hins vegar mætti vel færa rök fyrir því að Vatnsmýrin yrði í úthverfaklasa Reykjavíkur, rétt eins og Hlíðarnar og Melahverfin sitt hvorum megin við svæðið. 

Ólafur Þórðarson arkitekt
New York, 29. október, 2014

Myndum og efni má dreifa að vild ef getið er höfundaréttar (copyright).

Skrifað og teiknað í september 2013, apríl, 2014 og snurfusað í október 2014. 

If you see something, say Ebola!

If you see something, shout Ebola!