Olafur Thordarson

Friday, November 07, 2014

Þétting: Forgangur í skipulagi Reykjavíkur. Vatnsmýrin, eða...

Þétting byggðar: Forgangur í skipulagi höfuðborgarinnar.

Spurningin sem brennur á vörum manna er fyrst og fremst þessi um þéttingu byggðar. Mikils misskilnings gætir almennt með hvaða meining felst í þessari "þéttingu" því margir virðast halda að byggð á svæði núv. flugvallar sé þétting.

Ég er alveg harður á að þétting byggðar Reykjavíkur sé fyrst og fremst mál sem felst í innbyrðis þéttingu núverandi byggðaklasa og að það sé mál #1. Því þétting byggðar felst ekki í að byggja enn eitt úthverfið, jafnvel þó það sé meira "miðsvæðis" í þessum úthverfagraut sem höfuðborgarsvæðið er. Úthverfi sem slíkt er engin eiginleg þétting byggðar. Úthverfaskipulagið er bútasaumur án miðju og hefur engann miðbæ, en hefur nokkra verslunarkjarna eins og t.d. Skeifuna og shopping mollin sem auðvelt er að keyra í utan annatíma. Þ.e. sjálft bifreiðaskipulagið getur því miður aldrei nokkurn tímann verið þétt byggð. Það er vegna þess að hugmyndafræði bifreiðaskipulagsins, þ.e. svefnhverfanna er byggð á skipulagðri dreifingu byggðarinnar með ýmis mannfræðilegar ídeólógíur að leiðarljósi.

Eiginlegt borgarmynstur eins og ég bendi á í greininni  http://veffari.blogspot.com/2014/10/vatnsmyrin-er-ekki-i-mib-reykjavikur.html  er nefnilega á tiltölulega smáu svæði innan borgarmarkanna og það eru ekki eintómir "trékofar" heldur vagga íslenskrar byggingarsögu, bæði með atvinnu-, stofnana- og þjónustuhúsnæði sem og líka íbúðarhúsnæði.

Það má enginn efast um að þar liggur einn stærsti menningararfur þjóðarinnar.

Miðbærinn er í stöðugri hættu því ekki hefur alltaf verið farið rétt með hann. Nýlegar stórbyggingar við Skúlagötu sanna það og sýna að það sem fyrir er er helst rutt í burt og takmörkuð vægð sýnd  byggingarsögu sem er fyrir og oft lætur lítið yfir. Meira að segja gamalt götumynstur og umhverfi í mannlegum skala er eyðilagt af illskiljanlegum ástæðum. Horfði á annað svona dæmi nú í sumar, reyndar nokkur, og sé ýmis svæði sem mætti merkja með rauðum fána. Með öðrum orðum, þá eru gömul söguleg hús sem eru eyrnarmerkt til að grotna niður svo hægt sé að rífa þau, undir formerkjum þessarar þreyttu klysju að þau séu "byggð af vanefnum." Í staðinn koma svo oft of stórir og kaldranalegir nýmóðins risa kumbaldar. Af hverju tala um Vatnsmýrina þegar slík brennandi mál eru fyrir framan nefið á okkur? Ýmsar nýlegar byggingar í miðborginni hafa tekist mjög vel, eru látlausar og þarf að hampa sem vel heppnuðum. Góðar borgar-byggingar eru nefnilega ekki þær sem fylgja síðustu tískustefnum heldur þær sem fylgja skýrum staðháttum með praktískum borgvænum lausnum í mannlegum skala.

Hlíða- og Melahverfin eru hvor um sig úthverfaskipulag síns tíma (skv. borg-í-görðum hugmyndafræði frá 19. öld, eða hús á miðri lóð). Þau eru úthverfaskipulag sem sést vel á byggingarmynstrinu og götumyndum og hvernig ekki hefur tekist að viðhalda nema broti af þeim búðum og því þjónusturými sem upphaflega voru sett í hverfamynstrið. Í stuttu máli má segja að innbyrðis þéttleiki þeirra sé ekki nægur. Ekki hjálpar til að eðlilegt gegnumflæði umferðar var stíflað í botnlangagötur sem beinlínis drepur þjónustu. Maður er svolítið smeykur um að ekki verði rétt byggt í Vatnsmýrinni og ég tel mig geta fært fyrir því all haldgóð rök (jafnvel þótt byggingartillögur "Valsmanna" séu eitthvað í rétta átt) að þá verði mikið af leiðinda einhæfum of stórum blokkum og bílrými yfirþyrmandi rétt eins og á flestum þesssum bifreiða-skipulagssvæðum borgarinnar.

Byggingarstefnan ætti í stuttu máli að vera að koma alvöru þéttingu á koppinn í núverandi berangurslegum úthverfum (eitt í einu) og byggingu smærri húsastærða á auðum svæðum og vel úthugsuðum viðbyggingum húsa í miðbænum og á svæðunum næst við. Og þegar menn hafa dregið af því lærdóm sem þeir geta verið sáttir við þá taka fyrir Vatnsmýrina. Sem byggingarland fyrir þétta borgarbyggð. Þó hún sé ekki í miðbænum sem slík, þá er hún á mjög góðum stað sem er létt að klúðra.

Það eina sem ég hef áhyggjur af með miðbæjarbyggð í Vatnsmýrinni er að hún gæti dregið úr vægi gamla (eina alvöru) miðbæjar Reykjavíkur eins og Kringlan gerði á sínum tíma. Þ.e. erfitt er að segja til um hvort hún styrki miðbæinn eða beinlínis dragi úr honum. Er pláss fyrir tvo miðbæi sem eru aðskildir með 1-2 km svæði sem er ekki miðbær?

Ólafur Þórðarson

Skrifað
6. nóvember og birt 7. nóvember 2014, málfarsgallar lagaðir 4. janúar 2015.

Monday, November 03, 2014

Daylight Savings time-change

Here is my take on the Daylight Savings time changes: 
Daylight savings is based on speculative arguments. You can go on about all the different pieces that you choose for or against your argument. You may be saving here wasting there and so on. But you will not get through half of the societal puzzle pieces that are required in order to add up. What is more interesting is that you can't add all these different pieces to get a specific answer since there is no formula for that. And in the end, a daytime is a fixed length stick that is the shortest on December 21st and the longest on June 21st. You can't make it longer by sawing off one end or gluing another piece to the other and no matter how you rearrange the stick, you can't change its length. That's the way it works for this large thin-crusted molten sphere of red hot magma that flies around the sun at great speed in the vacuum of space. 
So I'm of the opinion that Daylight Savings is another "pretend to do something" type of game. Or more of a cultural trend. Like Long Friday or another imaginary day of celebration with some history. The question is that it is hard to rationalize the fairly recent invention of Daylight Savings. Especially when I get my daughter on the bicycle at the end of the day and after a Daylight Savings change it puts us in the dark and less safe to bike home.
OTh

Wednesday, October 29, 2014

Er Vatnsmýrin í miðbæ Reykjavíkur?

Miðbær Reykjavíkur.

Hvar er miðbærinn?

Oft heyrir maður því haldið fram að Vatnsmýrin sé í miðbæ Reykjavíkur. Ég hef áhuga á að skoða hér hvort þetta sé rétt fullyrðing. Hún kemur kannski til af því að flest fólk höfuðborgarsvæðisins býr í úthverfum og er eðlislægt að skilgreina borg út frá eigin (bíla) umhverfi. Ég gerði þetta sjálfur þar sem ég er alinn upp í Hvassaleiti -ágætu dæmi um úthverfaskipulag. 
Við nánari skoðun á byggðarmynstri sést vel að eiginlegt miðbæjarskipulag er í raun í kvosinni og upp Laugaveginn og í nærliggjandi götum, s.s. Skólavörðustíg og ýmsum hlutum vesturbæjar. Þau eru mörg millisvæðin en set ég hér fram smá útskýringarmynd til að sýna ílanga legu sjálfs miðbæjarins:


MYND 1
Reykjavík-lega miðbæjar; Borgarkjarninn í rauðu og dökkbláu. Aðlæg hverfi og eiginleg borgargerð í ljósbláu.  Mynd: Ólafur Þórðarson 2013.

Lækjartorg-Hlemmur
Áhugaverðast finnst mér að skoða (labba eða hjóla) leiðina sem tengir Lækjartorg við Hlemm annars vegar og svo leiðina Lækjartorg að BSÍ hins vegar. 
Önnur leiðin er borgarskipulag, þar sem fjölbreytileiki, smágerð byggð og þétt er alla leið. Mikið er af fólki á ferð í erindagjörðum og stærðargráður byggðar, almennt séð, er viðeigandi, mótar skýrar borgargötumyndir og viðheldur þjónustu við gangstétt og þar fram eftir götum. Þessi leið tengir saman borgarhluta með gangvænni þéttri blandaðri byggð. Hún einnig endar nokkurn veginn þar sem við tekur úthverfaskipulag austur fyrir og upp um fyrrum sveitir. "Ég lít til að mynda þannig á að austan Rauðarársstígs sé Reykjavík varla eiginleg borg heldur meira og minna slitrjótt samansafn úthverfa." (Ó.Þ. Mbl. 21.12.1997)

Lækjartorg-BSÍ
Hin leiðin, sem liggur í grófum dráttum að BSÍ liggur fyrst í gegnum borgarskipulag öðrum megin götunnar, þ.e. Lækjargötu. Þá tekur við Tjörnin og svo Sóleyjargata þar sem er garður öðrum megin og tiltölulega dreift skipulag húsa austan megin götu. Byggðamynstur er í grófum dráttum áþekkt Hlíðunum eða á Melunum. Engin þjónusta eða búðir eru á þessari leið, en Hljómskálagarður og Tjörnin gegna sínu ágæta hlutverki að vera andsvar borgarbyggðar. Þegar komið er að BSÍ blasir við nýlega útfært en berangurslegt svæði sem hefur í raun lítið sem ekkert með miðborg að gera, en er meira skyldur kappakstursbrautum og bílastæðaflæmum og þjónustu við bíla fram yfir gangandi, en sinnir þó hjólandi að einhverju leyti.

Svipuð vegalengd
En þegar göngu okkar líkur við Hlemm eða BSÍ getum við mælt leiðirnar og borið saman vegalengdina. Í ljós kemur að Lækjartorg-Hlemmur eru 1,2 km í ríkulegu borgarumhverfi.
Leiðin að BSÍ er afar ólík og alls ekki "miðbær" nema í takmörkuðum skilningi þ.e. fyrstu 250 metrana næst Lækjartorgi. Þessi leið, sem er nærri jafnlöng öllum miðbæjarkjarnanum er einnig um 1,2 km, en liggur beint í burtu frá miðbænum.

Þrjár aðrar mögulegar tengingar eru frá miðbænum í Vatnsmýrina. Ein er Njarðargata. Hún er með ansi laglegri þéttri húsabyggð efst á Skólavörðuholtinu, enda prýði Reykjavíkur á póstkortum. En brött er hún að fara sem bein tenging og vegna legu landsins ekki aðgengilegasta leiðin í miðbæinn. Barónsstígur er önnur möguleg tenging sem vert er að skoða, miðborgarumhverfið sem slíkt er að mestu norðan við Sundhöllina.



MYND 2
Reykjavík-miðbær; Mögulegar tengingar úr miðbæjarskipulagi Reykjavíkur yfir í Vatnsmýri, þ.e. suður yfir Hringbrautina. 1,2 km eru svona rúmlega 20 mínútna labb án hindrana fyrir meðal manneskju.  Mynd: Ólafur Þórðarson 2013.

Fjórða tengingin er Snorrabraut. Þegar ég sleit barnskónum tendist hún með hringtorgi við Miklubraut og þaðan beint ofan í Vatnsmýri. Í dag liggur Snorrabraut beint í hraðbrautarslaufu og þá upp á Bústaðarveg. Þessi mannvirki koma í veg fyrir viðburðarríka beina gangandi borgartengingu frá Vatnsmýri yfir á miðbæjarsvæðið sem við Snorrabraut má segja að sé í- og fyrir norðan Mjólkursamsöluna gömlu og Austurbæjarbíó.

Niðurstaða.
Með þessari samantekt er ég að sýna fram á að Vatnsmýrin er ekki í miðbæ Reykjavíkur og byggð þar yrði sem sagt ekki í miðbæ Reykjavíkur. Ég dreg af ofangreindu þá ályktun að fullyrðingin sé beinlínis röng. Bæði er töluverður spotti að miðbænum (1,1-2 km) og ýmsar hindranir landfræðilegar og í formi mannvirkja, sem ekki styðja þessa tegund borgartengingar. Ég fæ ekki séð að hægt sé að tengja saman Vatnsmýrina og miðbæinn með "borgargötum" nema til komi stórvirk niðurrif á bæði nýlegum mannvirkjum og róttækum breytingum á gömlum grónum hverfum. Hins vegar mætti vel færa rök fyrir því að Vatnsmýrin yrði í úthverfaklasa Reykjavíkur, rétt eins og Hlíðarnar og Melahverfin sitt hvorum megin við svæðið. 

Ólafur Þórðarson arkitekt
New York, 29. október, 2014

Myndum og efni má dreifa að vild ef getið er höfundaréttar (copyright).

Skrifað og teiknað í september 2013, apríl, 2014 og snurfusað í október 2014. 

If you see something, say Ebola!

If you see something, shout Ebola!

Thursday, May 29, 2014

Hvað er í raun langt til Keflavíkur?

Góður félagi minn spurði, en af hverju mælirðu ekki tímann, hvað lengi er verið að fara til Keflavíkur? "Það er miklu fljótlegra en annars staðar." En, eins og ég útskýri að neðan, þá tekur svona 1:30-2:00 klst að fara með Flybus, frá því maður kaupir miðann þar til maður er kominn í heimahús í Reykjavík. 

Hvað er langt og hvað er lengi verið að fara á einhvern stað, já og hvað er langt til Keflavíkur? Jú það eru sem sagt akkúrat 50km frá Lækjartorgi. Ef þú ert Hafnfirðingur þá eru 38 km frá Leifsstöð að Hafnarfjarðarkirkju. Það er ekki vegna þess að þú átt erindi í kirkjuna, heldur er hún ágætur viðmiðunarpunktur, miðpunktur í hjarta Hafnarfjarðar, sem byggðin er utnaum. Ef þú sem Hafnfirðingur keyrir alla leið á 90km/h frá þessu miðgildi að Leifsstöð, þá ertu aðeins um 25 mínútur að Leifsstöð. Fram og tilbaka svona klukkutími.

Og ef þú ert að keyra frá Seltjarnarnesi, þá erum við að ræða svona 55km keyrslu. Ef þú ert að keyra frá Mosfellsbæ, þá eru það tæpir 60km (alls 120km). Mosfellsbær er jú sambærilegur við Hafnarfjörð að ýmsu leyti. Á endamörkum höfuðborgarsvæðisins rétt eins og Seltjarnarnes.

Höfuðborgarsvæðið er í laginu eins og þríhyrningur, með Seltjarnarnesi í vestra horni Mosfellsbæ í eystra horni og Hafnarfirði syðsta horni.

Það eru í raun þrír ferðamátar sem hægt er að nota til viðmiðunar með hvað langt er að Leifsstöð. Það sem flestir þekkja er einkabíllilnn, svo er það rúta og þá leigubíll.

Eiginlega eru leigubílar og bílaleigubílar (ef þeir eru til staðar við lendingu) sami tímakvarði og einkabíll svo ef við setjum ferðakostnað til hliðar, þá er um tvo ferðamöguleika að ræða frá Leifsstöð í höfuðborgarsvæðið; fólksbíll eða rúta. Nú er því þannig farið að Íslendingar sem búa á höfuðborgarsvæðinu nota sinn einkabíl. Þetta er algengasta viðmiðunin. Þeir sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu nota rútuna sem fer á BSÍ.

Ólíkt öðrum höfuðborgum þá er of dýrt að taka leigubíl frá flugvelli í heimahús. Að taka leigubíl frá Keflavík til Reykjavíkur er þrefaldur til fjórfaldur kostnaður miðað við JFK-Manhattan.

Ein mælingin, þessi í Janúar 2013
Þar eð ég hef búið langtímum í New York borg, þá á ég ekki bíl á Íslandi og tek því yfirleitt rútuna. Þá liggur við að segja, já hún er svona 50 mínútur á BSÍ, það er svona plús og mínus.

En það er eiginlega ekki neitt svar. Því spurningin þarf að vera hvað er langt frá því maður kaupir rútumiðann í Leifsstöð þar til maður labbar inná kaffiilminn í heimahúsi? Er það ekki þetta sem menn eru að spyrja um? Hvað er ferðatíminn langur?

Það sem gildir fyrir hvað, milljón farþega?

Jú ég skal svara því af því ég er svona arkitektanörd og alltaf að mæla allt. Ég er nefnilega búinn að vera að mæla þennan tíma í Keflavík ansi oft. Það eru svona 45 mínútur frá Kringlumýrarbraut að Keflavík á löglegum hraða og án umferðar.

En að taka rútu er varla undir 1,5 klst. aðra leið og oft yfir 2 klst að komast í heimahús eftir flug.

Og það virkar svona komið frá Leifsstöð
  • Kaup á miða 0 mínútur
  • Bið eftir rútu: 20 mín (0:20)
  • Rútuferð á BSÍ 45 mínútur (alls 1:05).
  • Bið eftir TAXA 10 mínútur (alls 1:15).
  • Taxi kominn og keyrður heim 10 mínútur (alls 1:25).
       Samtals 1 klst og 25 mínútur (1:25).


En yfirleitt er þetta ekki svona einfalt. Leigubílar eru bara ekki til staðar þegar maður þarf á þeim að halda. Síminn virkar ekki  og útlendingur veit ekkert hvernig hann á að snúa sér í einu eða neinu. Hvernig hringir maður annars í leigubíl? Oftast er þetta langt yfir 1,5 klst aðra leið, jafnvel vel yfir 2 klst að fara frá Leifsstöð í heimahús. Stundum hefur þetta verið svona:
  • Kaup á miða 0 mín.
  • Bið eftir rútu 30 mín (0:30)
  • Rútuferð á BSÍ 65 mín. umferð í Hafnarfirði og norðurúr. (alls 1:35)
  • Bið eftir Taxa: Einhver bisniss-jakkafatapési tróð sér fram fyrir mig, ég lengi að athafna mig með barnakerru og bleiupoka og gaurinn náði í síðasta leigubílinn og...Æ svo virkar síminn ekki á Íslandi... Ég finn einhvern til að hringja fyrir mig. Þar til leigubíll kemur: 20 mín. Já þessi liður hefur tekið svona hálftíma. (alls 1:55)
  • Taxi kominn og keyrður heim 15 mín (alls 2:10)
       Samtals 2 klst og tíu mínútur (2:10)


;  bara önnur leið. Ég hef oft margreint þetta. Prófið sjálf, vesgú. Gerið þetta endilega með þrjú lítil börn. Ég hef mælt þetta bæði lengur og skemur.
Aeops sagan um hérann og skjaldbökuna. 

Málið er nefnilega að við miðum heiminn út frá okkar persónulegu reynslu. Þ.e. svona Gulli, á heima í Hafnarfirði og á jeppa sem kemst til Keflavíkur á 20 mínútum, "þ.a.l. hljóta að vera bara 20 mínútur í Keflavík!" En það er bara fyrir Gulla sem á jeppann í Hafnarfirði. Ég heiti Ólafur og á heima í New York og það tekur mig að jafnaði 1,5-2klst að komast úr Leifsstöð í heimahús.

Það eru nefnilega ekki allir á einkabíl eða hafa vin eða fjölskyldu sem bíður eftir manni á Leifsstöð við komu eða brottför. Töluvert stór hluti farþega og gesta er einmitt ekki í þeirri aðstöðu að vera skutlað.

Hvað er áætlað að margir komi til landsins 2020 og telst hagkvæmt að flestir séu svona 1,5-2klst á áfangastað í Reykjavík?

Tek annan pól í hæðina að hér úr Manhattan og yfir á JFK, sem er lengst í burtu af flugvöllunum í New York (18km), er ég um 30 mínútur í leigubíl á Sunnudagsmorgni. Á annatíma eru það allt að 50 mínútur, og þá frá flugvelli að heimahúsi.

Það er brot af þeim tíma sem tekur að fara frá Keflavík í heimahús í Reykjavík með annars ágætum Flybus og því sem fylgir.

Svo þá er ágætt að spyrja aftur: Hvað er eiginlega langt til Keflavíkur? Þ.e. Leifsstöð? Og telst hagkvæmt í annars strjálbýlu landi að ferðast 1,5-2 klst aðra leið? Það skal tekið fram að ofangreindur útrásarvíkingur í jakkafötum hefur verið eitthvað fljótari en ég. Sjálfsagt ekki eins fljótur og ef ég hefði ekkert annað að hugsa um en sjálfann mig og ekkert barn með í eftirdragi. En ég var fljótari en einhver sem kemur í fyrsta sinn til landsins og veit ekki hvernig á að snúa sér. Þá hefði ég verið á undan að ná síðasta taxanum!

Svo það má segja að tíminn til Keflavíkur sé ansi afstæður. Einn vinur minn á sportbíl og var 40 mínútur. Annar fór á hótel og var skutlað þangað af Flybus eitthvað svona 1:15. Ég hins vegar hef að jafnaði verið milli 1,5 og 2+ klukkustundir frá Keflavík og við það situr.

Og okkar á milli þykir mér það töluverð tímaeyðsla. Og margt smátt gerir eitt stórt.

Bestu kveðjur  frá New York borg

Ólafur Þórðarson

29.05.2014

Monday, May 12, 2014

Hvaðan kemur grjóthrúgan í Hljómskálagarðinum?

Hvaðan kom grjóthrúgan í Hljómskálagarðinum?

Ég man svo vel eftir henni sem smábarn og þótti hún mikið furðuverk. Ættingi kærustu minnar hennar Ernu hann Óli frændi fór með okkur 3ja ára skötuhjú í minnisstæða ferð þangað í leið 6 strætó. Það hefur væntanlega verið svona uppúr 1966 eða þar um bil. Ég hef í öll þessi ár velt fyrir mér hvaðan þessi grjóthrúga kom og hver setti hana þangað?



Voru þetta grjótafgangar úr einhverjum grunni eða var þetta landslagsverk gert af einhverjum listamanni eða arkitekt? Steinarnir eru vel rúnaðir, svo varla voru þeir fengnir úr grjótnámum eins og þeim í Öskjuhlíð og fyrir aftan Sjómannaskólann.

Skv. loftmynd frá 1954, (þegar rokkið var að fæðast: Elvis, Everly Brothers og Buddy Holly voru að, -eða við það að- taka upp sínar plötur og bylta heiminum með tónlist) sést ferningur sem ég veit ekki deili á. Hann er samsettur úr 19 einingum líkustum bátum eða þess háttar.

En á næstu mynd, 1965 er grjóthrúgan komin. (Og Bítlarnir á plötuspilarann). Hún er skemmtileg viðureignar fyrir krakka, tröppur í henni og núna í dag vaxin með heilmiklu af trjám. Hún snýr móti suðri og er ágætis skjól fyrir vindum á sólardögum. Eins og sést á ljósmynd af Lilju dóttur minni fyrir 3 árum.

Ef þú veist deili á þessari skemmtilegu grjóthrúgu væri gaman að vita meira um hana.

Sunday, May 11, 2014

Hvað er langt á flugvelli í helstu borgarkjarna? Úrtak Evrópu.

Hér er athugun nr.2 með hvað langt sé á flugvelli annars staðar. Hér er úrtakið á helstu borgir Evrópu og svo nokkrum smærri bætt með af handahófi. Það má hafa í huga að á flestum þessa flugvalla lenda stórar farþegaþotur.




Lengst reynist á flugvöll Moskvu, eða um 42 km. Völlurinn fyrir Osló og Stokkhólm, Mílanó og svo Keflavík eru þarna á bilinu 37-39km. Miðgildið úrtaksins sennilega nærri 10 eða 11 km. Ekki ósvipað fyrstu myndinni af austurströndinni frá Miami til Kanada. Í þessu úrtaki reynast vegalengdirnar í loftlínu vera:


  • Moskva: 42, 29, 28  (Lest)
  • Mílanó: 39, 7, 7  (Lest)
  • Keflavík: 38
  • Osló: 37  (Lest)
  • Stokkhólmur: 37, 7.3  (Lest)
  • Árósar: 30
  • Munchen: 28 (Lest)
  • Heathrow: 22 (Lest)
  • París deGaulle: 22 (Lest)
  • Aþena: 18 (Lest)
  • Gautaborg: 17
  • Berlín: 17, 8, 4 (Lest)
  • Helsinki: 15.5 (Lest)
  • Róm: 13, 7
  • Istanbúl: 13
  • Madríd: 12
  • Amsterdam: 11
  • Glasgow: 11
  • Brussel: 10
  • Frankfurt: 10
  • Prag: 10
  • Hamborg: 9, 8
  • Zurich: 9
  • Dublin: 8
  • Feneyjar: 8
  • Varsjá: 7
  • Mallorka: 7
  • Kaupmannahöfn: 6.4
  • Bern: 5
  • Vilnius: 5
  • Riga: 4
  • Lissabon: 4
  • Napoli: 3

Margar borgir hafa fleiri en einn flugvöll. Ekki eru teknir sérstaklega fyrir smærri flugvellir sem þjóna smærri vélum, eða fjölmargar smærri borgir með 100,000-500,000 íbúa.

Annað ber að athuga sem er að oft eru lestarsamgöngur góðar og tengjast flugvöllum beint og þá aðgengi gott í þær bæði innan borga og innan viðkomandi lands. Lestir af flugvöllum fara ekki einungis á einn endastað, heldur tengjast almenningssamgöngukerfi þá öðrum lestum í borginni. Kaupmannahöfn er einstaklega góð í þessu sambandi, þar sem bæði er skammt á Kastrup (6.5km loftlína) og lestarferðin þægileg. Áhugavert væri að skoða hvaða áhrif góðar lestarsamgöngur hafa haft á staðsetningu flugvalla almennt séð, eða gerð nýrra valla lengra í burtu. Evrópa stendur Bandaríkjunum framar á sviði almenningssamgangna með lestum, nema á takmörkuðum svæðum. Það er mikill munur á að geta ferðast á flugvöll með lest og ekki hafa allir aðgang að einkabíl. Reykjavík er líkari Bandaríkjunum að þessu leyti, áhersla skipulagsins hefur beinst fyrst og fremst að þörfum ökumanna einkabifreiða.

Miðað við hitt úrtakið vekur athygli að í þessu eru ekki flugvellir alveg eins nálægt miðpunkti borgarinnar. og Boston, Washington og Reykjavíkurflugvöllur. Þó eru ansi margir sem eru í svipaðri fjarlægð og Álftanes, eða þetta 3-7km.

Ólafur Þórðarson
Linkedin

Friday, May 02, 2014

Hvað er langt á flugvelli í helstu borgarkjarna? Úrtak frá Miami til Kanada.

Í dag setti ég saman, mönnum til gagns og fróðleiks, þetta kort sem sýnir fjarlægðir á flugvelli nokkurra helstu borga austurstrandar Norður Ameríku. Þetta er sem sagt úrtak frá Flórída til Kanada. Tek fram að það er ekki á einhverjar afstæðar miðjur í úthverfum, heldur fjarlægð frá flugvelli á sjálfa borgarkjarnana.

Setti svo þessar upplýsingar inn á kort sem við Íslendingar þekkjum vel og eigum þá vonandi betra með að átta okkur á þessum fjarlægðum. Hér er miðjan viðmiðunin í Reykjavík; Lækjartorg -og svo fjarlægð hinna erlendu flugvalla út frá því, svona eins og ef Lækjartorg væri miðja hinna borganna.



Við þessa skoðun sést betur að nokkrir vellir (Boston og Washington DC) eru svona rétt örlítið lengra frá borgarkjörnum og Reykjavíkurflugvöllur er frá Lækjartorgi. Þarna munar einhverjum hundruðum metra og á þessum völlum er lent stórum þotum. Hagkvæmni er í samgöngukerfum þessara borga og sjaldheyrt að menn ræði að fjarlægja mikilvæg samgöngumannvirki til að byggja á þeim hús. Ég verð lítið var við slíka umræðu.

Mestu vegalengd í þessu úrtaki er á aðal flugvöll New York borgar: JFK, sem er í eitthvað um 18-19km loftlínu frá fjármálahverfi Manhattan þar sem ég hef búið síðan á öldinni sem leið. Aksturinn frá Keflavík að Lækjartorgi, til samanburðar, er svona nokkurn veginn 50km (um 38km loftlína). Það má taka fram að það hefur ekki talist vera hagkvæmt að setja sérstaka járnbrautarlest frá JFK yfir á Manhattan þrátt fyrir að flugvöllurinn afgreiði stóra farþegaþotu á mínútu fresti og að langt yfir 100 ára reynsla sé í lagningu járnbrauta í borginni.

Munurinn á þessum leiðum öllum er að umferðin á þeim er mun þyngri en á höfuðborgarsvæðinu. Ekið er í gegnum þétt borgarhverfi milljónaborga og engin þessara leiða er um 30 km langa auðn nema Keflavíkurvegur. Keflavíkurvöllur, eins og menn vita, var byggður af Bandaríkjamönnum sem herflugvöllur í seinni heimsstyrjöld og augljóslega ekki staðsettur með hagkvæmnisviðmið til að þjóna Reykjavík.

Við New York borg eru flugvellir sem eru álíka langt í burtu og Keflavíkurvöllur er frá Reykjavík, en þeir teljast vera of langt í burtu til að vera til gagns. Einn þeirra er í um 70 km fjarlægð (MacArthur Airport) og stjórnaði ég þar hönnun á $65 milljóna flugstöðvarverkefni fyrir rúmum áratug. Sá völlur telst vera töluvert langt utan við radíus New York borgar hvað flugvöll varðar.

Með von um skynsamlegar ákvarðanir í þessu máli.

Ólafur Þórðarson

P.S. Myndina má nota að vild ef haldið er til haga copyright skírskotuninni.