Olafur Thordarson

Sunday, February 01, 2015

Náttúrugjald og hvað á að gera við peningana.

Náttúrugjald og hvað á að gera við peningana.

Menn horfa mikið á þá hlið sem kemur að því að rukka peninga sem notaðir verða til uppbyggingar á ferðaþjónustu og viðhaldi í kringum náttúruvætti. Náttúrupassi er af sumum kallaður flækjustig og margir virðast hallast að smávægilegu gjaldi settu á alla miða til landsins. Ég held að flestallir muni með glöðu geði borga upphæð sem nemur tveimur kaffibollum í einhvers konar "Iceland Nature Preservation Fund" stofnun með ámóta titli.

Svo er jú hin hliðin á flækju-stiginu sem er enn meiri flækja og kannski þarf að ræða svolítið betur. Hér að neðan eru nokkrir útgangspunktar um hvað ég á við:

Hvernig verður peningnum dreift? Hver
fær hvað?  (Piggy Bank Styled Power
Strip fæst hjá gadgetsin)
Hvernig verður peningnum úthlutað? Hverfur hann að einhverju leyti í kerfið eða verður hann allur notaður til uppbyggingar og þá hvernig?

- Verður peningurinn settur í nefndir og umræðupalla sem hafa það hlutverk að dreifa því sem eftir er af honum?

- Munu nefndir og umræðupallar stjórna eigin hring verktaka í uppbyggingaverk "ákveðin ofanfrá"?

- Mun nefndin eða ráðið láta framleiða staðlaðar einingar sem komið verður fyrir, til að hámarka nýtni? Segjum t.d. klósettskúra, girðingarstaura eða staðlaðar göngubrýr.

- Mega landeigendur sækja um að fá ákveðin verk gerð fyrir þá, segjum t.d. klósett, brú, göngustíg eða girðingu? Nefndirnar ákveða svo hver fær hvað og hvenær.

- Munu landeigendur sækja um að fá styrk úr sjóðnum? Beinar peningagreiðslur til uppbyggingar og ráða þá sína eigin verktaka þ.e. að sjá um allt sjálfir? Mega peningar vera beinar tekjur til landeigenda?

- Á hvaða stigi verður búið að varanlega breyta náttúruvætti með manngerðri umgjörð eða beinum breytingum. Hvernig drögum við svo línuna á milli hins manngerða og náttúrunnar, þ.e. hvernig er passað upp á að náttúruleg upplifun sé ekki skemmd með yfirdrifnum breytingum?

- Hvernig ákveðum við hönnunarferli fyrir hvern stað og hvað/hvernig má byggja og hvað ekki, þ.e. hvernig er passað upp á að breytingarnar bæti upplifun á náttúruvættinu og verndi það.

Mér sýnist mikil og þörf umræða vera framundan um hver fær hvað og hvernig. M.ö.o. hvað er það eiginlega sem helst vantar? Fyrir hvaða verkefni er verið að rukka og hvað nákvæmlega hefur forgang.

Ólafur Þórðarson

Arkitekt og listamaður