Olafur Thordarson

Friday, November 07, 2014

Þétting: Forgangur í skipulagi Reykjavíkur. Vatnsmýrin, eða...

Þétting byggðar: Forgangur í skipulagi höfuðborgarinnar.

Spurningin sem brennur á vörum manna er fyrst og fremst þessi um þéttingu byggðar. Mikils misskilnings gætir almennt með hvaða meining felst í þessari "þéttingu" því margir virðast halda að byggð á svæði núv. flugvallar sé þétting.

Ég er alveg harður á að þétting byggðar Reykjavíkur sé fyrst og fremst mál sem felst í innbyrðis þéttingu núverandi byggðaklasa og að það sé mál #1. Því þétting byggðar felst ekki í að byggja enn eitt úthverfið, jafnvel þó það sé meira "miðsvæðis" í þessum úthverfagraut sem höfuðborgarsvæðið er. Úthverfi sem slíkt er engin eiginleg þétting byggðar. Úthverfaskipulagið er bútasaumur án miðju og hefur engann miðbæ, en hefur nokkra verslunarkjarna eins og t.d. Skeifuna og shopping mollin sem auðvelt er að keyra í utan annatíma. Þ.e. sjálft bifreiðaskipulagið getur því miður aldrei nokkurn tímann verið þétt byggð. Það er vegna þess að hugmyndafræði bifreiðaskipulagsins, þ.e. svefnhverfanna er byggð á skipulagðri dreifingu byggðarinnar með ýmis mannfræðilegar ídeólógíur að leiðarljósi.

Eiginlegt borgarmynstur eins og ég bendi á í greininni  http://veffari.blogspot.com/2014/10/vatnsmyrin-er-ekki-i-mib-reykjavikur.html  er nefnilega á tiltölulega smáu svæði innan borgarmarkanna og það eru ekki eintómir "trékofar" heldur vagga íslenskrar byggingarsögu, bæði með atvinnu-, stofnana- og þjónustuhúsnæði sem og líka íbúðarhúsnæði.

Það má enginn efast um að þar liggur einn stærsti menningararfur þjóðarinnar.

Miðbærinn er í stöðugri hættu því ekki hefur alltaf verið farið rétt með hann. Nýlegar stórbyggingar við Skúlagötu sanna það og sýna að það sem fyrir er er helst rutt í burt og takmörkuð vægð sýnd  byggingarsögu sem er fyrir og oft lætur lítið yfir. Meira að segja gamalt götumynstur og umhverfi í mannlegum skala er eyðilagt af illskiljanlegum ástæðum. Horfði á annað svona dæmi nú í sumar, reyndar nokkur, og sé ýmis svæði sem mætti merkja með rauðum fána. Með öðrum orðum, þá eru gömul söguleg hús sem eru eyrnarmerkt til að grotna niður svo hægt sé að rífa þau, undir formerkjum þessarar þreyttu klysju að þau séu "byggð af vanefnum." Í staðinn koma svo oft of stórir og kaldranalegir nýmóðins risa kumbaldar. Af hverju tala um Vatnsmýrina þegar slík brennandi mál eru fyrir framan nefið á okkur? Ýmsar nýlegar byggingar í miðborginni hafa tekist mjög vel, eru látlausar og þarf að hampa sem vel heppnuðum. Góðar borgar-byggingar eru nefnilega ekki þær sem fylgja síðustu tískustefnum heldur þær sem fylgja skýrum staðháttum með praktískum borgvænum lausnum í mannlegum skala.

Hlíða- og Melahverfin eru hvor um sig úthverfaskipulag síns tíma (skv. borg-í-görðum hugmyndafræði frá 19. öld, eða hús á miðri lóð). Þau eru úthverfaskipulag sem sést vel á byggingarmynstrinu og götumyndum og hvernig ekki hefur tekist að viðhalda nema broti af þeim búðum og því þjónusturými sem upphaflega voru sett í hverfamynstrið. Í stuttu máli má segja að innbyrðis þéttleiki þeirra sé ekki nægur. Ekki hjálpar til að eðlilegt gegnumflæði umferðar var stíflað í botnlangagötur sem beinlínis drepur þjónustu. Maður er svolítið smeykur um að ekki verði rétt byggt í Vatnsmýrinni og ég tel mig geta fært fyrir því all haldgóð rök (jafnvel þótt byggingartillögur "Valsmanna" séu eitthvað í rétta átt) að þá verði mikið af leiðinda einhæfum of stórum blokkum og bílrými yfirþyrmandi rétt eins og á flestum þesssum bifreiða-skipulagssvæðum borgarinnar.

Byggingarstefnan ætti í stuttu máli að vera að koma alvöru þéttingu á koppinn í núverandi berangurslegum úthverfum (eitt í einu) og byggingu smærri húsastærða á auðum svæðum og vel úthugsuðum viðbyggingum húsa í miðbænum og á svæðunum næst við. Og þegar menn hafa dregið af því lærdóm sem þeir geta verið sáttir við þá taka fyrir Vatnsmýrina. Sem byggingarland fyrir þétta borgarbyggð. Þó hún sé ekki í miðbænum sem slík, þá er hún á mjög góðum stað sem er létt að klúðra.

Það eina sem ég hef áhyggjur af með miðbæjarbyggð í Vatnsmýrinni er að hún gæti dregið úr vægi gamla (eina alvöru) miðbæjar Reykjavíkur eins og Kringlan gerði á sínum tíma. Þ.e. erfitt er að segja til um hvort hún styrki miðbæinn eða beinlínis dragi úr honum. Er pláss fyrir tvo miðbæi sem eru aðskildir með 1-2 km svæði sem er ekki miðbær?

Ólafur Þórðarson

Skrifað
6. nóvember og birt 7. nóvember 2014, málfarsgallar lagaðir 4. janúar 2015.

No comments: