Olafur Thordarson

Friday, May 02, 2014

Hvað er langt á flugvelli í helstu borgarkjarna? Úrtak frá Miami til Kanada.

Í dag setti ég saman, mönnum til gagns og fróðleiks, þetta kort sem sýnir fjarlægðir á flugvelli nokkurra helstu borga austurstrandar Norður Ameríku. Þetta er sem sagt úrtak frá Flórída til Kanada. Tek fram að það er ekki á einhverjar afstæðar miðjur í úthverfum, heldur fjarlægð frá flugvelli á sjálfa borgarkjarnana.

Setti svo þessar upplýsingar inn á kort sem við Íslendingar þekkjum vel og eigum þá vonandi betra með að átta okkur á þessum fjarlægðum. Hér er miðjan viðmiðunin í Reykjavík; Lækjartorg -og svo fjarlægð hinna erlendu flugvalla út frá því, svona eins og ef Lækjartorg væri miðja hinna borganna.



Við þessa skoðun sést betur að nokkrir vellir (Boston og Washington DC) eru svona rétt örlítið lengra frá borgarkjörnum og Reykjavíkurflugvöllur er frá Lækjartorgi. Þarna munar einhverjum hundruðum metra og á þessum völlum er lent stórum þotum. Hagkvæmni er í samgöngukerfum þessara borga og sjaldheyrt að menn ræði að fjarlægja mikilvæg samgöngumannvirki til að byggja á þeim hús. Ég verð lítið var við slíka umræðu.

Mestu vegalengd í þessu úrtaki er á aðal flugvöll New York borgar: JFK, sem er í eitthvað um 18-19km loftlínu frá fjármálahverfi Manhattan þar sem ég hef búið síðan á öldinni sem leið. Aksturinn frá Keflavík að Lækjartorgi, til samanburðar, er svona nokkurn veginn 50km (um 38km loftlína). Það má taka fram að það hefur ekki talist vera hagkvæmt að setja sérstaka járnbrautarlest frá JFK yfir á Manhattan þrátt fyrir að flugvöllurinn afgreiði stóra farþegaþotu á mínútu fresti og að langt yfir 100 ára reynsla sé í lagningu járnbrauta í borginni.

Munurinn á þessum leiðum öllum er að umferðin á þeim er mun þyngri en á höfuðborgarsvæðinu. Ekið er í gegnum þétt borgarhverfi milljónaborga og engin þessara leiða er um 30 km langa auðn nema Keflavíkurvegur. Keflavíkurvöllur, eins og menn vita, var byggður af Bandaríkjamönnum sem herflugvöllur í seinni heimsstyrjöld og augljóslega ekki staðsettur með hagkvæmnisviðmið til að þjóna Reykjavík.

Við New York borg eru flugvellir sem eru álíka langt í burtu og Keflavíkurvöllur er frá Reykjavík, en þeir teljast vera of langt í burtu til að vera til gagns. Einn þeirra er í um 70 km fjarlægð (MacArthur Airport) og stjórnaði ég þar hönnun á $65 milljóna flugstöðvarverkefni fyrir rúmum áratug. Sá völlur telst vera töluvert langt utan við radíus New York borgar hvað flugvöll varðar.

Með von um skynsamlegar ákvarðanir í þessu máli.

Ólafur Þórðarson

P.S. Myndina má nota að vild ef haldið er til haga copyright skírskotuninni.

18 comments:

veffari said...

TH: " Óli, er ekki eðlilegra að mæla aksturstímann en vegalengdina?"

Sæll. Nei, en vissulega skiptir tíminn máli. Hér er mæling mín á flybus:

Í eitt skiptið í fyrra var það uþb svona:

Mín
0 Miði keyptur í flybus
30 Rúta leggur af stað
95 Komið að BSÍ
110 Lagt af stað í leigubíl
120 Komið á áfangastað í Reykjavík

Í annað skiptið var það svona:
0 Miði keyptur í flybus
15 Rúta leggur af stað
65 Komið að BSÍ
75 Lagt af stað í leigubíl
85 Komið á áfangastað í Reykjavík

Yfirleitt er þessi ferð svona um og yfir 1, 5 klst. í rútu. Þessi leið hefur tekið mig yfir 2 klst. Fyrir flesta er leigubíll of dýr til og frá Keflavík.

Í bíl hef ég yfirleitt mælt svona 45-50 mínútur að gatnamótum Kringlumýrabr/Miklubrautar.
Í bíl hef ég mælt 20 mín frá Manhattan að Newark flugvelli.
JFK í bíl svona 40-60 mínútur. FI614 fer á mesta annatíma svo fyrir Íslendinga er JFK oft lengri tími en ef flogið væri á ýmsum öðrum tímum.

Vandinn við tímamælingu eru sem sagt þessi stóru tímafrávik og þessir mismunandi ferðamátar. Sem þýðir að erfitt er að ná eins skýrri mynd og landfræðilegt afstöðukort sýnir og auðveldara að hagræða tölum eftir behag. Það er annað/öðruvísi kort eða kannski graf sem þarf að sýna tegund ferðamáta og tímafrávik.

Hilmar þór said...

Flott færsla.
Mætti ég birta þetta á vef mín um Arkitektúr, skipulag og staðarprýði?
Kkv
Hilmar þór

veffari said...

Sæll Hilmar. Já, mín væri ´
ánægjan. Bestu kveðjur. Ólafur

Ragnaremil said...

Í þessu ljósi ættum við að leggja niður KEF. Flytja alla utanlands traffíkina til Rvk. Þá yrðu nú allir glaðir.

Inga Hrund said...

Hvernig liti svona kort út fyrir stórborgir N-Evrópu?

veffari said...

Varðandi komment með tímamælingu, þá er hún of afstæð og misjöfn eftir tíma dags o.s.frv. Slíkt kort væri hálf gagnslaust. Þess vegna er þetta kort mitt beinar fjarlægðir því þær segja einfaldlega best frá.

En La Guardia flugvöllur í NYC er núna á Sunnudagsmorgni í um 25 mínútna "tímafjarlægð" frá mér. Newark er 18 mínútur
JFK er 29 mínútur.

veffari said...

Inga Hrund, ég er með það kort líka. skal birta það nú í vikunni.
Bestu Kveðjur.

Unknown said...

Gardermoen, 45 mín frá miðbæ Oslo. Torp ca 60 min frá Oslo, Rygge er ca 60 mín frá Oslo. Gamli Fornebu flugvöllur var hinsvegar bara um 15 mín hámark á háannatíma frá miðbænum.

Anonymous said...

Það væri ágætt!

Unknown said...

Skýtur ekki svolítið skökku við í myndrænni framsetningu að birta annars vegar beina loftlínu og svo raunverulega akstursleið hins vegar? Eðli málsins samkvæmt er jú að öllu jöfnu minni munur á loftlínu og akstursleið eftir því sem loftlínan er styttri - en samt sem áður smávegis epli VS appelsínur samanburður? Að öðru leyti mjög áhugaverð og flott grein.

Guðmundur said...

Þökk fyrir, þetta er mjög áhugavert og gott innlegg. Þetta snýst að mínu viti þó ekki aðeins um fjarlægð flugfarþega að miðbæ, heldur t.d. getu borgar og borgarkjarna til að vaxa og þróast. Miðborg Reykjavíkur hefur afskaplega takmarkaða vaxtar- og þróunarmöguleika. Eins og staðan er þá getur Reykjavík annað hvort þétt byggð (sem hún er að gera) eða byggt ný úthverfi, og öll austan við miðbæinn (þar sem mun fleiri vilja búa en gera). Það má heldur ekki gleyma því að það kemur einnig til greina að koma miðstöð innanlandsflugs fyrir annars staðar en í Keflavík og áhugavert að talsmenn t.d. hjartans í vatnsmýrinni vilji ekki flugvöll á Hólmsheiði (vegna slæms veðurs) en eru alveg tilbúnir að samþykkja að sumir Reykvíkingar verði í framtíðinni að flytja þangað. Annað er mikilvægi flugvallar, sem endalaust er hægt að rífast um, New York á t.d. ansi mikið undir nálægð JFK flugvallarins við kjarna sinn, Reykjavík mun minni vegna flugvallarins. Inn í þetta mætti einnig taka umhverfisþætti, ferðatíma, nauðsyn þess að æfingaflugið eigi að vera í Reykjavík o.s.frv. En aftur; gott innlegg.

Hr. Svavar said...

Það er að vísu lest frá JFK til Manhattan.
Það er A-lestin og hún er óskaplega notaleg.

Unknown said...

Get nefnt Landvetter fyrir utan Gautaborg (25km) þar sem ég bý. En annað sem ekki er hefur verið minnst á í þessu samhengi er hljóðmengun. Allir þessir flugvellir sem staðsettir eru nálægt borgarkjörnum eru þar gegn kröfum um að hljóðmengun sé haldið í skefjum að viðlögðum fésektum á þau flugfélög sem ekki halda vélunum í skefjum í lendingu og flugtaki. Fyrir áhugasama má kíkja á það sem gildir fyrir JFK hér (http://www.boeing.com/commercial/noise/jfk.html). Það er sérstaklega áhugavert, finnst mér, að lesa takmarkanir á "ENGINE RUN-UP RESTRICTIONS" sem lagðar eru á flugfélögin. Sennilega eru til svipaðar reglur á Íslandi, bæði fyrir RVK og KEF.

Ég hef ekki búið á Íslandi síðan 2005 svo ég þekki ekki vel til hvernig flugmálum (og pirringi vegna þeirra) er háttað í RVK í dag, en ég gæti vel ímyndað mér að það sé helst N-S flugbrautin sem sé til ama.

Ég hef það samt á tilfinningunni að það sé fremur þessi mikla úthverfabygging án sterkra þjónustukjarna (nú meina ég ekki hluti eins og kringlan og smáralindin...) sem dregur allt þetta fólk út á þetta þrönga nes sem miðbær RVK er byggt á, sem er hið raunverulega vandamál.

veffari said...

Reyndar eru tveir lestarmöguleikar frá Manhattan (LIRR) en A-lestin hefur þann kost að vera ódýr eða 300kr.
Að vísu þarf að borga sig inná lókal lest þegar komið er nær vellinum, 550kr.

Gróa said...

Mig langar að legga inn í þessa umræðu eftirfarandi: Þetta varðar hljóð"mengun" frá vélunum. Ég er alin upp í Njarðvík og varð illilega fyrir barðinu á rosalegum hávaða frá flugvélum ..... sér í lagi meðan herinn var og hét.
Nú bý ég í Reykjavík og var t.d. á rúmlega klukkutíma löngum afar fallegum kórtónleikum í Fríkirkjunni við Tjörnina. Á þessum klukkutíma flugu 5 sinnum flugvélar yfir þarna með tilheyrandi truflun á tónleikunum !!! Hús í miðbænum eru ekki byggð á sama hátt og hús á Manhattan eða wherever .... og þótt vélarnar séu ekki stórar þotur, þá drynur vel í þeim þegar þær eru nánast komnar að jörðu þarna við Tjörnina. Mig varðar engu um það hvort í Vatnsmýrinni eigi að byggja .... en bara fyrir sakir menningaratburða og t.d. útfara í kirkjum í miðborginni, þá vildi ég vera laus við flugvélatraffikina. Mér finnst litlu muna að keyra til Keflavíkur ....

Anonymous said...

Áhugavert yfirlit!

Þar sem tekið er fram að myndina megi "nota að vild ef haldið er til haga copyright skírskotuninni" skýtur nokkuð skökku við að hvergi komi fram hver eigi copyright á upprunalegu gervitunglamyndinni.

veffari said...

Anton. Varðandi Keflavíkurveginn sem er á myndinni, þá er hann til viðmiðunar. Allar staðsetningar eru í loftlínu, þ.m.t. Keflavíkurvöllur.

Ragnar Emil, já það er umhugsunarvert að flytja eitthvað af millilandaflugi til Reykjavíkur.

Anonymus bendir á copyright. En copyright í þessu tilviki nær augljóslega til skýringarmyndar minnar með fjarlægðarpunkta. Myndin er fengin frá Google Earth, sem byggir sín gögn á Landsat, U.S. Navy, NOAA NGA og GEBCO -sem eru meira og minna "Open license" þ.e. mönnum er frjálst að nota þessar loftmyndir. Ef ég misskil það eitthvað þá get ég bætt inn hinu copyright ef það er viðeigandi.

Unknown said...

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10152372469918232&set=p.10152372469918232&type=1&theater